154. löggjafarþing — 98. fundur,  18. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[18:08]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurninguna og umræðuna hér í dag. Ég held að flestir hefðu frekar viljað að við gætum tekið nýtt örorkulífeyriskerfi í gagnið 1. janúar næstkomandi eins og var planið í fyrra með síðustu fjármálaáætlun. En það tók lengri tíma að undirbúa frumvarpið. Að sjálfsögðu reyndum við að viðhafa samráð við sem allra flesta, við aðila vinnumarkaðarins, við hagsmunasamtök fatlaðs fólks, og auðvitað er þetta talsvert umfangsmikið inni í stjórnkerfinu. Þetta eru umfangsmiklar breytingar og þó svo að breytingarnar séu til einföldunar þá hefur það reynst meiri vinna að koma þeim í orð og undirbúa þær en við gerðum ráð fyrir í fyrra. Það er því óhjákvæmilegt að fresta gildistökunni og hún er því sett á 1. september á næsta ári, sem er þá átta mánaða seinkun. Það má því segja að fjármagn sé að færast til. Fyrstu átta mánuðina á næsta ári eru þær breytingar ekki að koma til framkvæmda sem annars hefði verið. Ég er ekki alveg með það á hreinu hversu há sú upphæð er sem þar færist til en það sem ég veit er að við erum að gera ráð fyrir rúmlega 18 milljarða kr. aukningu inn í kerfið árlega. Það eru umfangsmiklar fjárhæðir sem munu skipta máli og munu skipta máli í því að draga úr fátækt á meðal þessa hóps.